Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 699. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1386  —  699. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004, með síðari breytingum (eftirlitsgjald).

Frá viðskiptanefnd.



    Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa skulu fasteignasalar greiða árlegt eftirlitsgjald fyrir 1. júlí ár hvert. Fjárhæð gjaldsins nemur 100.000 kr. og skal standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala.
    Frá því að innheimta eftirlitsgjaldsins hófst hefur safnast í nokkurn sjóð þar sem kostnaður við eftirlitið hefur reynst minni en talið var í upphafi. Fram kom við umfjöllun um málið að um 66 millj. kr. væru í sjóðnum og að gert væri ráð fyrir því að tæplega 20 millj. kr. yrðu innheimtar á næsta gjalddaga að óbreyttum lögum. Með lögum nr. 18/2009 var lögfest ákvæði til bráðabirgða við lögin um að gjaldið yrði ekki innheimt á árinu 2009 og með lögum nr. 73/2010 var ákveðið að innheimta ekki heldur vegna ársins 2010.
    Í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu er unnið að frumvarpi til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa og er því með þessu frumvarpi lagt til að gjaldtökunni verði frestað til ársins 2012. Stefnt er að því að hið nýja frumvarp verði lagt fram á næsta þingi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Sigurður Kári Kristjánsson og Skúli Helgason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. maí 2011.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Birkir Jón Jónsson.


Björn Valur Gíslason.



Margrét Tryggvadóttir.